Golf

Aðalsíða
Persónan
Bolungarvík
Áhugamál
Námsferill
Starfsferill
Skemmtun
Tenglar

 

Upphafið

Ein af þeim fjölmörgu íþróttum sem krakkar á landsbyggðinni stunda er golf. Minn ferill hófst í kringum 10 ára aldurinn þegar eldri bróðir minn fór að kenna mér að slá í bolta. Fljótlega var ég búinn að útbúa 9 holu púttvöll á lóðinni heima og farinn að halda púttkeppnir fyrir mig félaga mína. Leiðin lá svo fljótlega til Mallorca þar sem ég hitti fyrir Kjartan L. Pálsson, stofnanda Einherja klúbbsins svokallaða, en hann kenndi mér réttu aðferðirnar á púttvöllum eyjaskeggja. Það fór að sjálfsögðu svo að ég vann púttkeppni Samvinnuferða Landsýn í ferðinni og hélt heim á leið með dýrindis verðlaunapening. Það varð ekki mikið úr golfiðkan minni í þessari lotu en vegarnestið var gott sem skilaði sér seinna.

Nútíminn

Það kom loksins að því að ég tók aftur upp golfhanskann sumarið 1998, í fyrstu var lítið spilað en sumarið 1999 var farið að hugsa af einhverri alvöru um spilamennskuna.  Lokaskrefið var stigið sumarið og tók ég þá þátt í mínu fyrsta móti, Klúbbakeppni Vestfjarða á Patreksfirði. Þó árangurinn á mótinu hafi ekki gefið af sér nein verðlaun voru þó teikn á lofti um að með frekari ástundun væri hægt að komast á verðlaunapall. Ári síðar er verðlaunapallurinn ennþá draumur einn en forgjöfin er komin niður fyrir 25.

Framtíðin

Fyrsta markmiðið sem ég hef sett mér er að verða betri í golfi en yfirmaðurinn í vinnunni. Því næst er stefnt á að lækka forgjöfina eitthvað aðeins til að geta talist maður með mönnum í íþróttinni. Næsta markmið er að verða Bolungarvíkurmeistari, Vestfjarðameistari o.s.frv. Að lokum er stefnan sett á atvinnumennskuna og mega þá Tigerinn, Mrs. Doubtfire og félagar að fara að passa sig ...

 

[ til baka ]

Síðan var síðast uppfærð 06.01.2002